31. desember 2004


Já árinu að ljúka og nýtt að hefjast. Af því tilefni langar mig að leggja til að dagsetning áramóta verði í framtíðinni miðuð við sumardaginn fyrsta! Þá eru einhvern veginn miklu meiri tímamót og bjartari tíð með blóm í haga framundan :) Svo er líka ómögulegt að ætla að setja sér einhver heilsuvænleg áramótaheit þegar myrkrið og stormarnir ráða ríkjum. Þá vill maður bara setja sér það heit að kúra inni hjá sér og borða mikið af góðum og óhollum mat og eyða kvöldunum með köllunum sínum. Amen.
Mosfellskt fjölskylduvænt áramótateiti í kvöld og það kemur til með að líta nokkurn veginn svona út samkvæmt partíhaldaranum:

Dagskrá

18:30 - Fólk mætir - Fordrykkur
19:00 20:00- Borðhald hefst
20:00-22:25 - Annálar, partýleikir og annað sem fólki dettur í hug. Guðmundur Páll Ólafsson hefur tækifæri á að æfa eins og eitt lag á nýja gítarinn fyrir kvöldið og tekur kannski lagið af nýju sólóplötunni sinni, Pípandi ást.
22:25-23:19 - Áramótaskaupið
23:19-23:55 Upphitun og uppröðun flugelda. Aðeins tekið í Singstar - Kariókí og partýleiki, Ljóðalestur úr bókinni Lendur Elskhugans eftir Vigdísi Grímsdóttur
00:00 Flugeldaveisla
Eftirpartý


Þetta ætti að geta orðið alveg sérdeilis ágætur mannfagnaður og svei mér þá ef maður leggur ekki til Popppunkts-spilið í skemmtiatriðaflokkinn. Það er jú með eindæmum hressandi spil og um að gera að nýta tækifærið og fá einhvern til að spila við sig þar sem Píp er jú eitthvað tregur til þess eftir að ég hringaði hann hérna um daginn. Eða svo gott sem.

Góða skemmtun í kvöld fólk og gangið hægt um gleðinnar dyr.


30. desember 2004


Hví skyldi maður brenna peninga þegar þörfin fyrir þá er þetta mikil annarsstaðar? Valið er ekki erfitt af minni hálfu.

27. desember 2004

26. desember 2004


Er þetta nýja Birgittu dúkkan???



Nibbs, þetta er Viddi Toystorzky.

25. desember 2004


Gleðileg jól kæru ættingjar, vinir, nærsveitungar og allir lesendur nær og fjær. Aðfangadagskvöld var dásamlegt sem endra nær og maturinn frábær og gjafirnar líka. Litli píp hefur eignast bróður sem hann skilur ekki við sig eina mínútu og það mun vera Viddi úr Toy Story, upptrekkt tuskudýr sem spjallar við hann og leikur. Hinn Píp fékk Fender frá okkur hér á Hvarsemer og verður örugglega farinn að gaula "ÓlafíahvarerVigga" af fullum krafti á nýja árinu. Nánar um jólagjafir og jólaát síðar.

Okkur var að berast rétt í þessu glæný gervihnattamynd tekin úr gervihnettinum Jónas sem staddur er yfir Kanada, nánar tiltekið yfir Klettafjöllunum og Jasper þar sem einmitt Tobba og Gaui eru að renna sér þessa stundina og ef vel er að gáð má sjá að þetta eru þau á fleygiferð niður brekkurnar.



Jæja borða meira... Blóðsykurinn að falla!

P.s. Píp gaf mér Mugison en engan Popppunkt. Sem er vísindaleg sönnun þess að hann heyrir ekki nema helminginn af því sem ég segi...

21. desember 2004


Jólin stefna í að verða á áætlun þetta árið, þ.e. þau skunda í garð klukkan 18.00 á föstudaginn næsta (24. des). Seinkun telst ólíkleg en þó alltaf möguleg. Allt of mikið að gera í höfuðstöðvum hvarsemer þessa dagana til að sitja við tölvuna og pikka eitthvað bull á lyklaborðið en hvarsemer er semsé á góðu lífi og enn meira hvarsemer en nokkru sinni. Litli píp farsællega orðinn fjögurra ára og jólagjöf hins píp komin í hús. Kortin á sveimi um allt land og pakkarnir að skríða saman. Líka búið að koma út í vinnunni á fimmta hundrað jólakorta og á þriðja tug jólagjafa.

Er þá nokkuð annað að gera en að hlusta á BAGGALÚTS-JÓLALAGIÐ sem er loksins komið og fá sér jólaöl og vonast til að Trölli skili jólasnjónum?

17. desember 2004


Hjálmatónleikar á laugardaginn var, hjálmatónleikar í gær, hjálmar í bílnum, hjálmar í sturtunni, hjálmar oná brauð. Fæ ekki nóg!
Fyrir forvitna og þá sem ekki muna, sjá einnig færslu 22.09.2004.

13. desember 2004


Er ekki alveg kominn tími á að Birgitta, Mugison, Jónsi, Helgi Pé, Eivör, Mínus, Kalli Bjarni, Robertínó og fleiri hressir endurgeri "Hjálpum þeim"?

11. desember 2004


nonsense

You're Mr. Nonsense! :P

Það er yfirþyrmandi ánægja að fá að vera hver þeirra sem manni hlotnast sá heiður að vera!

Hver öðrum meira af snillingum kominn!



Mér langaði að vera þessi og mér hlakkar til jólanna! Amen! Þér varðar ekkert um hvað mér finnst, ég er greindur þágufallssýkissjúklingur! Barrrbarabúss...gorrrbatsjof...

Svo var ég líka á jólaglöggi...

5. desember 2004


Jólahefðir réðu ríkjum í dag þar sem pípfamilían - sá hluti sem ekki hefur flúið land - hittist og skar út laufabrauð og tróð sig út af lafskás! Já þjóðþekktur jólasiður það, þó laufabrauð kunni að hljóma framandi. Lapskas þekkja allir, skárra væri það nú. Nei nei, nú er einhver farinn að hvá... hvað er þetta laf...? Jú góð spurning... lafskás eða lapskaus eða lapschkaus eða lapzkaz eða hvernig sem þetta ágæta orð er skrifað, er að upplagi fyrirtaks fangelsiskjötkássa með kartöflustöppu. Já finnið þið hvernig bragðkirtlarnir taka kipp? Veit minnst um hvaðan þessi réttur er upprunnin en hann gæti þó verið suðurlands-undirlenskur af stórbýlinu Litla-Hrauni eða jafnvel ef við förum út fyrir landssteinana, kominn frá Borgundarhólmi.
Allavega er þetta mjög merkilegur réttur sem alla fjölskylduna dreymir um í heila 12 mánuði og snæðir svo, eða treður í andlitið á sér réttara sagt, í desember ár hvert þegar hún hefur lokið við að skera út laufabrauðskökur í tugatali. Sló réttinum upp á netinu áðan til að í fyrsta lagi finna út hvað hann heitir rétturinn og þegar ég sló inn lapskas fékk ég upp þetta nafn "söxuð kjötstappa". Merkilegt nafn þar sem ég mundi halda að það sem er annars vegar saxað og hins vegar stappað hljóti hreinlega að teljast til mauks. Kjötmauk einhverskonar. Eða bara kássa! Fann meira að segja uppskrift þannig að áhugasamir geta farið að prófa sig áfram, en ég skal lofa ykkur því að það tekur heila mannsævi að ná samanlagðri snilld þeirra píp-formæðra, Eybu og Steinunnar.

2. desember 2004


Vissi að von væri á ammælispakka frá Toggu hinni Ammrísku til Lil'pip með hraðflugpóstimeðvængiogallt, en svo óheppilega vildi til að ég var ekki heima þegar FedEx kallarnir komu skransandi á ljóshraða að heimili mínu. Þeir skildu eftir háfleygan miða í póstkassanum mínum með skilaboðum um að hafa samband í hvelli við FedEx - strax! og þeir mundu koma pakkanum til mín í einum logandi grænum. Hringdi að sjálfsögðu á slaginu 9 í morgun og bað um að fá pakkann til mín í vinnuna! Ekki málið sendum hann þangað á stundinni og ekki mínútu síðar! Klukkutíma síðar opnast hurðin í vinnunni hjá mér og inn koma tveir menn með kassa á stærð við meðal baðherbergi á milli sín. Man að ég hugsaði - er Togga alveg búin að tapa sér?!?!?! Svo þegar ég ranka við mér aftur úr rotinu frétti ég að þetta var alls ekki Toggu pakki sem fyllti upp í móttökuna á L182 heldur nýr sófi á vinnustaðinn. Hjúkk... Togga er ennþá með fullu viti... (alls ekki sjálfgefið sko)

P.s. Rétti pakkinn kom svo nokkrum mínútum síðar og vá hvað sá og innihald hans eiga eftir að vekja mikla kátínu hjá ungum manni :)

1. desember 2004


Samkvæmt þessu er póstþjónustan í Kanada alls ekki að standa sig í stykkinu og tekur víst ógnartíma í að koma sendingum til skila og ekki þykir póstapparatið í BNA standa sig skár, en pósturinn í Þýskalandi hlýtur að eiga vinninginn. Hann stendur sig hreint út sagt afleitlega!! :/
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats